Lögreglan á Akureyri hefur til rannsóknar kæru Landhelgisgæslunnar á hendur skipstjóra línubáts, sem grunaður er um að hafa verið á ólöglegum veiðum í friðuðu hólfi norður af Siglufirði.
Gæslan fylgdist með ferðum bátsins að hólfinu í gegnum fjareftirlitsbúnað sinn. Síðan slökknaði á búnaðinum heila nótt en kviknaði á honum aftur þegar báturinn hélt til hafnar morguninn eftir.
Fulltrúar Landhelgisgæslunnar tóku á móti bátnum og gaf skipstjórinn þá skýringu að siglingatölva bátsins hefði bilað. Þegar eftirlitsmennirnir vildu fá að skoða tölvuna kvaðst skipstjórinn þurfa að halda aftur á sjó og bað þá koma daginn eftir. Þegar eftirlitsmennirnir komu daginn eftir var tölvan horfinn. Skipstjórinn sagði að tölvan hefði reynst ónýt og hann hefði hent henni í gám. Fóru eftirlitsmennirnir tafarlaust að gámnum, en þá var búið að tæma hann.
Keimlíkt mál kom upp fyrir nokkrum dögum, þegar skipstjóri færeyska togarans Brestis var grunaður um að hafa verið að ólöglegum veiðum á Íslandsmiðum. Hann viðurkenndi hins vegar, að hafa hent helsta sönnunargagninu, siglingatölvu skipsins, í sjóinn á leið til hafnar.