Óréttlætanleg ofurlaun

Fundur starfsmanna Ríkisútvarpsins sem haldinn var klukkan eitt samþykkti ályktun þar sem segir að aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda feli í sér aðför að almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins. Harmað er að æðstu stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki séð aðra leið en að segja upp fólki og skerða laun. Rétt væri að þeir litu í eigin barm og  deildu kjörum með þeim sem undir þeim vinna. Ekki sé hægt að réttlæta ofurlaun hjá almannaútvarpi í ríkiseigu á meðan fólk sé rekið í sparnaðarskyni.  Þess er krafist að uppsagnir verði dregnar tafarlaust til baka. Kjaraskerðingu og skerðingu á samningsbundnum réttindum, þar með talinni flatri  launalækkun er hafnað.

Páll Magnússon útvarpsstjóri bað stjórn Félags fréttamanna um fund í morgun til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri vegna harðrar ályktunar félagsins þar sem  fréttalestur hans er meðal annars afþakkaður vegna þess sem er sagt vera skilningsleysi á hlutverki Ríkisútvarpsins.  Aðalbjörn Sigurðsson formaður félagsins segir að engar breytingar séu á afstöðu félagsins eftir fundinn með útvarpsstjóra í dag. Félagið hefur óskað eftir fund með Menntamálanefnd Alþingis um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka