„Einn drungalegan morgun snemma í ágúst, rúmum mánuði áður en Wall Street og alþjóðlega fjármálakerfið hrökk í kút, heimsótti háttsettur aðstoðarmaður forsætisráðherra Íslands rússneska sendiráðið í Reykjavík í þeim erindagjörðum að koma umdeildri ósk á framfæri: Leysið okkur út."
Þannig hefst grein á vef bandaríska fjármálatímaritsins Fortune undir fyrirsögninni: Landið sem varð að vogunarsjóði.
Þar segir, að Íslendingar hafi verið ein ríkasta þjóð í Evrópu en glímt við það vandamál, að þrír stærstu bankarnir voru orðnir svo stórir að eignir þeirra voru rúmlega tífalt meiri en verg landsframleiðsla og blikur voru á lofti.
Blaðið segir að Íslendingar hafi beðið hefðbundnar bandalagsþjóðir sínar um aðstoð en beiðnum til bandaríska seðlabankans, Seðlabanka Evrópu og Englandsbanka var ekki sinnt. Svarið var ávallt: Talið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn - en svo róttækt skref vildi Ísland ekki stíga.
Þá voru Rússar eftir. „Við vissum, að það myndi valda uppnámi ef við töluðum við þá og að hluta var það tilgangurinn," hefur Fortune eftir háttsettum Íslendingi, sem tók þátt í að taka þessa ákvörðun.
Í sendiráðinu hlustaði Victor Tatarintsev á mál íslenska sendimannsins. Fortune segir að sendiherrann, sem sé gamalreyndur diplómat og slunginn pólitískur refur, hafi strax séð að þarna var tækifæri. Hefur blaðið eftir íslenskum heimildarmanni, að Tatarintsev hafi brosað breitt þegar hann heyrði óskina borna fram.
Þessi rússneski leikur Íslendinga vakti raunar mikið uppnám þegar hann varð opinber í október. „Við hefðum auðvitað ekki fallist á nein pólitísk skilyrði," hefur Fortune eftir Geir H. Haarde. „Lánið hefði ekki gefið til kynna neina breytingu á utanríkismálastefnu okkar."
„En síminn á skrifstofu forsætisráðherrans hringdi í sífellu og embættismenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins flýttu sér að útbúa 2,1 milljarðs dala björgunarpakka. En þá var allt orðið um seinan. Ísland var þá þegar orðið fyrsta fórnarlamb fjármálakreppunnar," segir Fortune.