Sagt frá mótmælum Íslendinga

Geir Jón Þórisson ræðir við fólkið í anddyri Seðlabankans.
Geir Jón Þórisson ræðir við fólkið í anddyri Seðlabankans. mbl.is/Júlíus

Sagt er frá mótmælunum á Arnarhóli og við Seðlabankann, sem fóru fram í gær,  á forsíðu vefmiðils þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung í dag. Hundruðir mótmælenda hafi gert atlögu að Seðlabankanum og krafist þess að Seðlabankastjóri segði af sér, með fréttinni fylgir myndband af YouTube.

Jafnframt er sagt frá friðsömum mótmælum á Arnarhóli og vitnað í orð Einars Márs Guðmundssonar rithöfundar á Arnarhóli: „Stjórnvöld hafa spilað rúllettu og allt landið tapaði.“ Við eðlilegar kringumstæður hefðu Íslendingar fagnað 90 ára fullveldi sínu í gær 1. desember. Fjármálakreppan sem leiki þjóðina nú illa hafi hinsvegar varpað skugga á slíkan fögnuð.

Íslendingar hafi orð á sér fyrir að vera friðsamt fólk, glæpatíðni sé lág og að hingað til hafi þjóðin verið ánægð með stjórnvöld. Nú hafi ástandið breyst, fjármálakreppan orðið til að minnka stuðning við stjórnvöld og þess sé nú krafist í reglulegum mótmælum að Seðlabankastjóri og yfirvöld segi af sér.

Þá er tekið fram að forsætisráðherra hafi hingað til neitað því að fara frá völdum.

Hér má sjá fréttina í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka