Segir brýnt að mæta vaxandi þörf fyrir leiguhúsnæði

Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. mbl.is/Valdís Thor

Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir brýnt að mæta vaxandi þörf fyrir leiguhúsnæði í borginni. Þetta kom fram í máli Jórunnar á fundi borgarstjórnar í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að Jórunn hafi greint frá því að meirihluti sjálfstæðis- og framsóknarmanna í velferðarráði Reykjavíkurborgar hafi lagt það til að auglýst verði eftir leiguíbúðum á almennum markaði til endurleigu fyrir þá sem eru á biðlista eftir húsnæði á vegum Velferðasviðs.

Hún greindi einnig frá því að á vettvangi velferðarráðs færi fram góð samvinna meirihluta og minnihluta ráðsins um útfærslu tillögunnar. Jórunn segir tillöguna koma til móts við þá sem eru í húsnæðisvanda og eru á biðlistum eftir húsnæði hjá Félagsbústöðum.

Meirihluti Velferðaráðs Reykjavíkur lagði til á fundi sínum 26. nóvember síðastliðinn að Félagsbústaðir auglýstu eftir leiguíbúðum á almennum markaði til endurleigu fyrir þá sem eru á biðlista eftir húsnæði hjá Velferðarsviði.

Tillagan felur í sér að leitað verði eftir tilboðum frá eigendum íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sem uppfyllir þau skilyrði sem Félagsbústaðir hf gera til íbúðarhúsnæðis. Um geti verið að ræða fjölbreytta stærð og gerð leiguhúsnæðis og íbúðir fyrir eldri borgara. Leitast verði við að tryggja félagslegan fjölbreytileika við val á húsnæði.

Sviðsstjóra Velferðarsviðs og Framkvæmdastjóra Félagsbústaða hf. yrði falið að útfæra auglýsingu og reglur um leigu og leigusamninga. Reglur um leigu og gerð leigusamninga kæmu til samþykktar Velferðarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka