Þarf að stilla mótmælum í hóf

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir skiljanlegt að fólk mótmæli stjórnarfarinu og eftirlitsstofnunum . Það eigi rétt á því. Það þurfi þó að stilla mótmælum í  hóf og koma í veg fyrir ofbeldi.  Vinstri  grænir mælast nú sem stærsti stjórnmálaflokkurinn og fylgi við ríkisstjórnina dvínar mikið. Árni segir svona sviptingar eins og séu í þjóðfélaginu í dag jafnan leiða til þess að stjórnarandstaðan fái byr í seglin og því komi fylgi Vinstri grænna ekki á óvart. 

Ráðherrar hafa ekki tekið í mál að segja af sér og þrátt fyrir að Samfylkingin vilji breytingar í Seðlabankanum hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki viljað það. En hvernig á þá að koma til móts við kröfur fólks um breytingar?  Árni segir að mestu skipti að ná tökum á verðbólgunni og til þess þurfi að draga úr gengissveiflum. Það verkefni geti ekki beðið. Verðbólgan og gengið hafi mest áhrif á lán fólks og þess vegna hangi aðgerðir ríkisstjórnarinnar saman við það ástand sem fólk sé að mótmæla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert