Talið er að þúsundir fjölskyldna munu leita eftir aðstoð hjá Fjölskylduhjálp Íslands (FÍ) fyrir jólin og næstu mánuði. Beiðnum eftir aðstoð frá FÍ hefur fjölgað mikið undanfarna mánuði.
Í fréttatilkynningu frá FÍ segir að nú vinni um 30 sjálfboðaliðar hjá FÍ. Nauðsynlegt sé að sem flestir þeirra sem eru aflögufærir leggi starfseminni lið þar sem fjöldi karla, kvenna og barna bætist nú við þann stóra hóp sem búið hefur við kröpp kjör undanfarin ár.
„Skjólstæðingar okkar sjá ekki fram úr sínum fjárhagslegu vandræðum og vonir margra eru að bresta. Fólk kemur í örvæntingu sinni til okkar vegna stöðu mála í þjóðfélaginu. Hjálpumst öll að og styðjum við starf Fjölskylduhjálpar Íslands nú sem endra nær,“ segir m.a. í tilkynningunni.
Hægt verður að sækja um aðstoð fyrir jólin í dag milli kl. 15-17 í Eskihlíð 2-4.