Biskupsstofa segir í yfirlýsingu, að ákvörðun, sem biskup Íslands tók um að veita sr. Gunnari Björnssyni, sóknarpresti á Selfossi, lausn frá embætti um stundarsakir, gildi þar til endanlegur dómur liggur fyrir í máli hans.
Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í gær sr. Gunnar af ákæru fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum. Ekki liggur fyrir hvort dómnum verður áfrýjað til Hæstaréttar.