„Eigum að vinna þetta saman“

Húsnæði Tryggingastofnunar ríkisins.
Húsnæði Tryggingastofnunar ríkisins. mbl.is/Árni Torfason

„Við eigum að vinna þetta saman. Lögin kveða á um það og þannig vil ég vinna að þessu verki áfram,“ segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, þegar mbl.is spurði hana út í meint samstarfsslit Sjúkratryggingar Íslands og TR á þjónustusviði.

Í bréfi sem hefur borist forstjóra TR frá SÍ kemur fram að SÍ muni ekki halda áfram að starfa með TR að því að reka sameiginlega afgreiðslu, þjónustu og upplýsingagjöf við notendur þjónustunnar í Reykjavík. Það er hins vegar skýrt kveðið á þetta samstarf í lögum um sjúkratryggingar.

Þá hefur starfsmönnum á þessum sviðum verið boðið að sækja um starf hjá SÍ. Stefán Ólafsson, stjórnarformaður TR, segir í samtali við vefmiðilinn Smuguna að hann hafi áhyggjur af því að ef sá framkvæmdamáti nýju stofnunarinnar sem nú sé hafinn haldi áfram, verði það til að veikja Tryggingastofnun og skaða starfsemi hennar.

„Það skiptir mjög miklu máli að við vöndum okkur hvað varðar starfsmannamálin,“ segir Sigríður Lillý í samtali við mbl.is. „Við erum ekki búin að ljúka þessu ferli,“ segir hún og bætir við að hún eigi ekki von á öðru en að menn muni vanda til verka.

„Það fór bréf til starfsmanna [þar sem þeim sé boðið ótilgreint starf] og það hefur valdið ákveðnu óöryggi hjá þeim. Og við hljótum að reyna slá á það með einhverjum hætti og halda áfram að vinna þetta saman eins og við höfum gert sl. ár,“ segir Sigríður Lillý.

Sjúkratryggingar Íslands starfa samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar sem tóku gildi þann 1. október 2008. Stofnunin heyrir undir heilbrigðisráðherra og annast framkvæmd sjúkratrygginga. Jafnframt semur hún um og greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu.

Markmið laganna um sjúkratryggingar er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Jafnframt er markmiðið að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum þjónustunnar eftir því sem frekast er unnt. Þá er það einnig markmið laganna að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina þjónustuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert