Forstjóri gerist sjálfboðaliði

Fjöldi sjálfboðaliða starfar fyrir Fjölskylduhjálp Íslands sem ætlar að reyna að hjálpa allt að sexhundruð fjölskyldum fyrir jólin, helmingi fleiri en í fyrra.

Hermann Ragnarsson, forstjóri  Flotmúrs, notar frístundirnar til að aðstoða Fjölskylduhjálpina og er þar ötull sjálfboðaliði. Hann segist ekki þekkja neina aðra forstjóra í sama bransa en er viss um að ef þeir fengju tækifæri þá myndu þeir una sér vel. Aukastarfið geri hann að betri manni.

Hermann hóf feril sinn hjá Fjölskylduhjálpinni þegar lögreglan tók hann próflausan á bíl. Hann fékk að afplána með samfélagsþjónustu og eftir að henna lauk ákvað hann að halda áfram og situr nú í stjórn félagsins.

Hermann segir að það atvik í starfinu sem hafi komið verst við hann er þegar hann keyrði út mat fyrir veika konu um hríð en þurft að taka sér frí. Heimur konunnar hafi þá hrunið og á endanum hafi geðlæknir konunnar látið dóttur sína taka við.  

Helga Kristín Mogensen læknanemi keyrir núna mat til konunnar og ætlar að halda því áfram þótt Hermann sé kominn til starfa. Hún segist ekki hafa vitað hversu margir þyrftu á Fjölskylduhjálpinni að halda og ekki heldur hvað það séu margir sjálfboðaliðar sem hjálpi þar til. Hún segist telja að það væri gott fyrir fleiri háskólanema að taka þátt í starfinu.

Mikil örtröð var í Fjölskylduhjálpinni í dag en þá var matarúthlutun auk þess sem Flóamarkaðurinn var opinn en þar er hægt að fá ódýr eða ókeypis föt. Ásgerður Jóna Flosadóttir framkvæmdastjóri segir mikið af góðum gjöfum hafa borist. Í augnablikinu sé  mest þörf fyrir peninga en einnig komi sér vel að fá bleiur og sjampó.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert