Fjölskylduhjálp Íslands segir að ört fjölgi í hópi þeirra sem þurfi að leita aðstoðar með brýnustu nauðsynjar. Því sé mikilvægt að sem flestir sem eru aflögufærir leggi starfseminni lið.
Fjölskylduhjálp Íslands sendir frá sér neyðarkall. Í tilkynningu segir að þúsundir fjölskyldna muni leita eftir aðstoð nú fyrir jólin og á næstu mánuðum. Hópurinn fari stækkandi og því sé nauðsynlegt að sem flestir leggi starfseminni lið.
Karlar, konur og börn bætist ört í þann stóra hóp sem hafi búið við kröpp kjör síðustu árin hér. Í raun sé stór hluti almennings að færast niður á það framfærslustig sem þeir sem minnst mega sín, hafi mátt búa við síðustu árin.
„Skjólstæðingar okkar sjá ekki fram úr sínum fjárhagslegu vandræðum og vonir margra bresta. Fólk kemur í örvæntingu sinni til okkar vegna stöðu mála í þjóðfélaginu,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands í tilkynningu.
Hægt verður að sækja um aðstoð fyrir jólin í húsnæði Fjölskylduhjálparinnar í Eskihlíð 2 - 4 milli klukkan 15 og 17 í dag. Þar munu 30 sjálfboðaliðar sinna þeim sem leita þurfa aðstoðar fyrir jólin.