Töluverð aukning hefur verið á notkun sjálfvirkra almenningssalerna í Reykjavík milli ára. Hingað til hefur fólk þurft að greiða 10 krónur til að komast inn á sjálfvirku salernin en vegna kvartana borgarbúa var ákveðið að fella gjaldið niður í nóvember.
Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkur er notkunin breytileg eftir árstíma. Eru salernin mest notuð að sumarlagi, frá júní og fram í október en notkunin dregst saman yfir vetrartímann.
Einnig er notkunin mismunandi eftir staðsetningu. Fimm salerni eru í miðbænum: við Frakkastíg, í Mæðragarði, við Hlemm, við Vegamótastíg og við Ingólfstorg. Salernið við Hlemm er lang mest notað og var met slegið í nóvember, en þá voru notendur tæplega 1200.
Salernið við Ingólfstorg er mest notað á sumrin og fóru notendur yfir 800 í júlí og ágúst. Mun minni notkun er á salernunum við Vegamótastíg (mest yfir 400 á mánuði) og við Frakkastíg og Mæðragarð (mest yfir 200 á mánuði).
Auk sjálfvirku salernanna fimm eru tvö vöktuð salerni í bænum, annað við Vesturgötu 7 og hitt í Bankastræti 0. Einnig eru salerni í Ráðhúsinu og bílastæðahúsum á vegum bílastæðasjóðs. Að mati starfshóps um málefni almenningssalerna í Reykjavík þarf að bæta við nýjum salernum í miðborg Reykjavíkur. Lagt er til að loka núllinu í Bankastræti og setja upp nýtt fullbúið salerni með aðgengi fyrir alla. Aðrar staðsetningar sem hópurinn nefndi var Austurvöllur, Laugavegur, Ægissíðan, við Esjuna, í Hljómskálagarði og í Nauthólsvík.