Rafmagnið ódýrast á Íslandi

mbl.is/þök

Af höfuðborgum Norðurlandanna er rafmagn til heimilisnota ódýrast í Reykjavík og greiðir dæmigert heimili um 45 þúsund krónur á ári fyrir raforku. Dýrast er rafmagnið í Kaupmannahöfn þar sem dæmigert heimili greiðir um 216 þúsund krónur á ári.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, hefur borið saman rafmagnskostnað heimila í höfuðborgum Norðurlandanna. Gerður er samanburður á kostnaði heimila sem nota 4000 kWh á ári. Upphitunarkostnaður er ekki tekinn með.

Næst Reykjavík er Helsinki, með 51 þúsund krónur á ári, en sé miðað við gengi fyrir bankakreppu var raforkan ódýrust í Helsinki, eða 37 þúsund krónur á ári. Þar er miðað við almenn raforkukaup sem að stærstum hluta til koma frá kola- og kjarnorkuverum.

Í Helsinki kostar 15% aukalega að kaupa orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við þá sem við nýtum alfarið til raforkuframleiðslu hérlendis.

Í samanburði Samorku er miðað við gengi 14. nóvember sl., en til viðmiðunar vegna bankakreppunnar er staðan einnig borin saman miðað við gengi 1. júlí sl. Varla þarf að taka fram að samanburðurinn yrði Íslandi enn hagstæðari ef miðað yrði við gengi dagsins í dag, í stað 14. nóvember.

Vefur Samorku

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert