„Það er ekki hægt að gera neinar langtímaáætlanir heldur er veiðunum stjórnað frá degi til dags. Útbreiðsla sýkingarinnar í síldinni virðist vera mikil og þannig fréttist t.d. af sýktri síld á Steingrímsfirði í gærmorgun,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda.
Á vef HB Granda segir að óhætt sé að fullyrða að sníkjudýrið Iktíófónus, sem veldur sýkingu í íslensku sumargotssíldinni, hafi svo sannarlega sett síldveiðar landsmanna í uppnám, nú þegar búið er að veiða um tvo þriðju heildarkvótans á vertíðinni.
Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar fékk Ingunn AK um 1.600 tonn af síld á Breiðafirði í gær og er verið að landa þeim afla til bræðslu á Akranesi. Faxi RE og Lundey NS eru nú á miðunum.
„Það er erfitt að meta stöðuna og vísindamenn virðast ekki eiga auðveldara með það en aðrir. Spurningar, sem vakna, eru m.a. þær hvaða áhrif hefur það til framtíðar ef 40% af síldinni í Breiðafirði eru sýkt og síldin drepst þar eins og talið er hugsanlegt. Í fyrra mældi Hafrannsóknarstofnun 770 þúsund tonn af síld inni í Breiðafirði. Sé um svipað magn að ræða nú gætu því um 300 þúsund tonn af sýktri síld botnfallið þar. Áhrif þess á lífríkið geta varla verið jákvæð því talið er að sýkillinn muni lifa áfram,“ segir Vilhjálmur.