Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, undirritaði í dag alþjóðlegan samning um bann við klasasprengjum. Samningurinn bannar þróun, framleiðslu, notkun, birgðasöfnun og afhendingu klasasprengja. Samningurinn var undirritaður af hálfu 125 ríkja í dag.
Noregur, Perú, Austurríki, Nýja Sjáland og Írland fóru fyrir gerð samningsins um bann við klasasprengjum en Ísland hefur frá upphafi tekið þátt í samningsferlinu. Þá hafa Rauði Krossinn og önnur frjáls félagasamtök einnig beitt sér fyrir banninu.
Ísland hefur aðstoðað önnur ríki við hreinsum klasasprengjusvæða, nú síðast Líbanon. Ísland hefur einnig aðstoðað fórnarlömb jarð- og klasasprengja, m.a. með því að styrkja smíði gerfilima. Samningurinn sem undirritaður var í dag gerir ráð fyrir áframhaldandi alþjóðasamstarfi á þessu sviði, bæði hreinsun svæða þar sem klasasprengjum hefur verið beitt, svo og aðstoð við fórnarlömb. Mikið starf er einnig framundan við eyðingu birgða.