Stjórn Neytendasamtakanna vill að hagsmunir neytenda og alls almennings verði hafðir að leiðarljósi við uppbyggingu íslensks samfélags um leið og núverandi björgunaraðgerðum lýkur.
Þetta segir í frétt á heimasíðu samtakanna þar sem jafnframt er minnt á samþykkt þings samtakanna frá því í haust um að látið verði reyna á það með aðildarviðræðum hvort hægt sé að ná viðunandi samningum um inngöngu í Evrópusambandið (ESB).
„Hagmunir neytenda í þessu máli eru það miklir að þetta mál verður að setja í forgang með aðildarumsókn,“ segir í fréttinni.
Þar segir jafnframt:
„Að mati stjórnar Neytendasamtakanna er ljóst að aðildarumsókn nú er nauðsynleg í því uppbyggingarstarfi sem framundan er í íslensku efnahagslífi og erfitt er að sjá það fyrir sér hvernig það á að heppnast án umsóknar. Ljóst er að krónan hefur dugað þjóðarbúinu illa og því er eðlilegt að skoðað verði að taka upp annan gjaldmiðil. Strax með aðild að ESB, og jafnvel umsókn einni saman, getur krónan strax komast í ákveðið „skjól“ af evrunni. Umsókn um aðild myndi jafnframt auka tiltrú á íslenskt efnahagslíf og stuðla að stöðugleika sem þörf verður á í endurreisn efnahagslífsins.“„Nauðsynlegt er að fá úr því skorið sem fyrst hvaða hag íslenska þjóðin mun hafa af aðild að ESB. Það verður aðeins gert með aðildarumsókn og samningum. Því skorar stjórn Neytendasamtakanna á stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök að sameinast sem fyrst um aðildarumsókn og minnir á að einhugur er um að lokaákvörðun um aðild verði tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mati stjórnarinnar er ekki eftir neinu að bíða.“