Umboðsmaður Alþingis segist leggja áherslu á, að við framkvæmd neyðarlaganna svonefndu virði stjórnvöld þær grundvallarreglur, sem taldar eru gilda um meðferð valds stjórnsýslunnar gagnvart borgurunum og um gegnsæi í athöfnum og ákvörðunum.
Segir umboðsmaður í bréfi til forsætisráðherra, að þetta sé sérstaklega brýnt þar sem sá lagarammi, sem Alþingi hafi búið ákvörðunarvaldi stjórnsýslunnar um þessi mál, sé takmarkaður og það þótt stjórnsýslunni séu fengnar verulegar og viðamiklar heimildir til þess að hlutast til um málefni einstaklinga og fyrirtækja.
Umboðsmaður Alþingis birti í dag bréf, sem hann skrifaði forsætisráðuneytinu í nóvember, svarbréf ráðuneytisins, sem sent var í gær, og annað bréf sem umboðsmaður sendi ráðuneytinu í dag.Í upphaflegu bréfi eru 12 spurningar, sem varða neyðarlögin. M.a. segir umboðsmaður, að frásagnir og tilkynningar, sem stjórnvöld sendi frá sér, birti, t.d. á heimasíðum, eða yfirlýsingar í fjölmiðlum verði að vera efnislega réttar og styðjast við fullnægjandi lagaheimild á þeim tíma þegar tilkynning eða yfirlýsing er gefin. Ef ekki þurfi að gæta að áhættu vegna hugsanlegra bótakrafna á ríkið vegna ráðstafana einkaaðila í kjölfarið.
Í þessu sambandi vakti umboðsmaður athygli á frétt forsætisráðuneytisins um samkomulag milli Hollands og Íslands vegna IceSave, sem birt var 11. október 2008 á heimasíðu forsætisráðuneytisins, viðtali við viðskiptaráðherra í dagblaði um sama efni þar sem samkomulagið var sagt byggt á þjóðréttarlegum skuldbindingum, auglýsingum viðskiptaráðuneytisins þar sem talað væri um ríkisbanka og frétt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins 7. október sl.
Í svari forsætisráðuneytisins segir, að þetta hafi verið tekið upp við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir. „Er þess að vænta að ráðuneyti og ríkisstofnanir leggi sig sérstaklega fram um það á þessum tímum að veita sem áreiðanlegastar upplýsingar," segir í svarinu.
Í upphaflegu bréfi sínu segir umboðsmaður, að Alþingi hafi veitt stjórnsýslunni viðamiklar heimildir til að grípa inn í starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja sem jafnframt væru til þess fallnar að hafa veruleg áhrif á stöðu og eignir einstaklinga og fyrirtækja, bæði hér á landi og erlendis.
Þá væri fram komið að samhliða þessu hefðu stjórnvöld þegar komið að eða ráðgert að koma að ýmsum málum, sem hefðu verulega þýðingu bæði fyrir fjárhag og velferð borgaranna og rekstur fyrirtækja í landinu. Því skipti miklu máli að skýrt væri bæði gagnvart þeim sem kæmu að þessum verkefnum og hinum almenna borgara hvað væri hluti af stjórnsýslu ríkisins og lyti tilheyrandi reglum, þ.m.t. réttaröryggisreglum, og hvað verkefni einkaaðila.