16 ára fangelsi fyrir manndráp

Sérfræðingur tæknideildar lögreglu við rannsóknir á vettvangi í október sl.
Sérfræðingur tæknideildar lögreglu við rannsóknir á vettvangi í október sl. mbl.is/JJúlíus

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður á fertugsaldri, Þórarinn Gíslason, sem varð öðrum manni að bana í íbúð við Hringbraut í Reykjavík í október á síðasta ári, sæti 16 ára fangelsisrefsingu. Þórarinn neitaði sök en sakfelling byggði  m.a. á tæknirannsókn lögreglu.

Þórarinn var einnig dæmdur til að greiða systkinum mannsins, sem hann banaði, 504 þúsund krónur í skaðabætur.

Þórarinn var ákærður fyrir að hafa sunnudaginn 7. október 2007, veist að öðrum manni á heimili hans, og slegið hann minnst þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitæki. Sá sem fyrir höggunum varð höfuðkúpubrotnaði og fékk mikla heilablæðingu sem dró hann til dauða að kvöldi.

Þórarinn neitaði sök en bæði héraðsdómur og Hæstiréttur töldu sannað, að Þórarinn hefði á þessum tíma verið að langmestu leyti í óminnisástandi og því væri ekki byggjandi á reikulum framburði hans. Talið var sannað með tilliti til tæknirannsóknar lögreglu og vegsummerkjum, að Þórarinn væri sekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka