Heimsmarkaðsverð á áli hefur fallið hratt á undanförnum vikum og mánuðum en staðgreiðsluverð á tonni af áli var 1.642 dollarar í lok dags í gær, samkvæmt upplýsingum frá London Metal Exchange (LME).
Miklar hamfarir hafa einkennt hrávörumarkaði undanfarna mánuði. Um miðjan júlí var verð á málmum og olíu í sögulegu hámarki. Fatið af olíu kostaði þá 147 dollara en hefur undanfarna daga sveiflast í kringum 50 dollara. Svipaða sögu er að segja um álið en það hefur lækkað úr 3.300 dollurum í júlí niður í 1.642 dollara nú. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja, þá helst Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, sveiflast með álverði vegna sölusamninga á raforku til álvera. Þannig hefur álverðið bein áhrif á tekjur af raforkusölu.
Fyrrnefnt lækkunarferli á verði á áli er það hraðasta í sögunni, og það sama má segja um margar aðrar hrávörur eins og olíu og stál.
Sérfræðingar bandaríska bankans JP Morgan telja að verð á olíufati geti haldið áfram að lækka, og fari jafnvel niður í 35 dollara. Þeir telja einnig að verð á málmum geti tekið mið af verðinu á olíu og því lækkað nokkuð. Gangi spár sérfræðinga JP Morgan eftir getur verð á tonni af áli lækkað enn frekar jafnvel niður í 1.200 dollara. Spár bankans eru þó háðar mikilli óvissu.
Tæplega 12 prósent arðsemiskrafa vegna orkusölu frá Kárahnjúkum byggist á því að verð á tonni af áli sé um 1.550 dollarar tonnið, miðað við samninga sem undirritaðir voru snemma árs 2003.
Hlutabréf í mörgum framleiðslufyrirtækjum á hrávörumarkaði, þar á meðal álfyrirtækjum, hafa lækkað mikið samhliða verðlækkanaferlinu. Þannig hefur gengi hlutabréfa í Alcoa fallið úr 35 dollurum í júlí niður um 10 nú. Það gerir um 70 prósent lækkun. Yfirstjórn Alcoa hefur að undanförnu gripið til hagræðingaraðgerða, meðal annars með frestun verkefna.