Aðstandendur borgarafundar um efnahagsmálin hyggjast efna til opins fundar í Háskólabíói mánudaginn 8. desember næstkomandki, klukkan 20.00. Frummælendur verða Ásta Rut Jónasdóttir, húsmóðir, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, auk þriðja ræðumanns sem verður auglýstur síðar.
Fækkað er um frummælendur frá síðasta fundi úr fjórum í þrjá til að rýmka tíma fyrir fyrirspurnir úr sal.
Líkt og á síðasta borgarafundi í sama sal verður fundarefnið staða efnahagsmálanna, verðtryggingin, skuldir heimilanna og fleira sem að fjármálahruninu lýtur.
Að sögn Önnu Jónu Heimisdóttur, eins aðstandenda fundarins, er skorað á forystumenn úr þjóðlífinu að láta sjá sig á mánudagskvöldið.
„Við skorum á forystumenn verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða, viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra til að mæta og svara spurningum milliliðalaust.
Auk þess hvetjum við alla aðra ráðherra og þingmenn að mæta að og hlusta á sitt fólk.
Hinum almenna borgara mun nú gefast tækifæri að spyrja viðkomandi forustusveit spjörunum úr.
Þá munu verkalýðshreyfingin, fulltrúar lífeyrissjóða auk ráðherra eiga kost á því að skýra fyrir okkur almennum borgurum hvernig þessi samtök munu mæta kreppunni með okkur.“
Ennfremur stendur til að bera upp spurningar sem varða lífeyrissjóðina og stöðu þeirra eftir hrunið.
„Hvernig hefur varðveisla eigna okkar gengið fyrir sig hjá lífeyrissjóðunum, hver er niðurstaðan, hvað er tapið mikið? Mun verðtryggingin gera þá sem skulda eignalausa? Landflótta?,“ er spurt í tilkynningunni.