Forstöðumaður Byrgisins dæmdur í 2½ árs fangelsi

Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins í héraðsdómi.
Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins í héraðsdómi. mbl.is/Guðmundur Karl

Hæstiréttur hefur dæmt Guðmund Jónsson, fyrrverandi forstöðumann Byrgisins, í 2½ árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur konum. Var Guðmundur dæmdur til að greiða konunum 800 þúsund til 1 milljón króna í bætur. 

Hérðasdómur Suðurlands hafði áður fundið Guðmund sekan um brot gegn fjórum konum og dæmt hann í 3 ára fangelsi og  til að greiða öllum konunum bætur. 

Guðmundur var ákærður fyrir að hafa sem forstöðumaður, meðferðarráðgjafi og stjórnandi kristilegra samkoma á vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimili haft samræði og önnur kynferðismök við fjórar konur sem voru vistmenn þar og sóttu meðferðarviðtöl hjá honum. Þannig hefði hann misnotað freklega þá aðstöðu að konurnar voru honum háðar sem skjólstæðingar hans í trúnaðarsambandi.

Hæstiréttur sakfelldi Guðmund fyrir hluta þeirrar háttsemi sem honum var gefin að sök og var framin á meðan konurnar voru vistmenn á meðferðarheimilinu. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru vegna brota eftir að konurnar töldust ekki lengur vistmenn þar sem ekki þótti sýnt fram á hvernig þær hefðu verið skjólstæðingar Guðmundar í trúnaðarsambandi í skilningi hegningarlaga. Var hann því sýknaður af ákæru um brot gagnvart einni konunni. 

Við ákvörðun refsingar Guðmundar var litið til ungs aldurs einnar konunnar og þess að brotin beindust að konum sem höfðu leitað í brýnni neyð eftir meðferð vegna vímuefnaneyslu og ákærði hefði fært sér það í nyt með ófyrirleitni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert