Getur ekki vikist undan kosningum

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki vikist undan því að kosningar verði fyrr en við lok kjörtímabilsins. Styrmir segist raunar enga ástæðu til að ætla, að flokkurinn vilji komast hjá kosningum þótt staðan sé nú erfið í skoðanakönnunum. 

„Hins vegar er eðlilegt að áður en þær fara fram hafi almenningur aðgang að öllum upplýsingum um bankahrunið og aðdraganda þess. Fyrr geta kjósendur ekki kveðið upp sinn dóm. Þau rök Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, að ekki sé hægt að kjósa á fyrstu mánuðum næsta árs á meðan verkefni Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er að komast í gang eru líka rétt. Gert er ráð fyrir, að skýrsla rannsóknarnefndar um bankahrunið liggi fyrir 1. nóvember á næsta ári. Þegar hún hefur verið birt og rædd er sjálfsagt að kjósa strax. Fyrir 30 árum var kosið í desember 1979. Það er hægt að kjósa aftur í desember 2009," segir Styrmir í grein á vefnum AMX.is í dag.

Hann segir jafnframt enga ástæðu til að ætla, að umfjöllun um Evrópusambandið á vegum Sjálfstæðisflokksins leiði til stefnubreytingar á landsfundi. Meira þurfi til en áskorun Samfylkingar og stjórnmálafræðinga hennar í Háskóla Íslands. „Það hefur ekkert nýtt gerzt í málefnum Evrópusambandsins frá síðasta landsfundi flokksins, sem ætti að leiða til breyttrar niðurstöðu," segir hann síðan.

Styrmir segir að úr herbúðum Samfylkingarinnar berist kröfur um að sá flokkur slíti stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn samþykki landsfundurinn ekki stefnubreytingu gagnvart ESB.

„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins getur að sjálfsögðu ekki látið samstarfsflokkinn setja sig upp að vegg með þeim hætti. Það er heldur ekkert vit í því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fara einhverja millileið. Flokkurinn verður að taka afstöðu. Sumir trúnaðarmenn hans tala nú ýmist tungum tveim eða halda öllu opnu þar til á landsfundi. Þeir, sem telja sig til forystu fallna en þora ekki að taka afstöðu dæma sig sjálfir úr leik á hinum pólitíska vettvangi. Ungir stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir því að láti þeir kúgast af tímabundinni múgsefjun eru þeir hvorki færir um að leiða flokk né þjóð við erfiðar aðstæður." 

Grein Styrmis 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert