Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis, segir það hafa komið sér á óvart að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, skyldi ekki upplýsa nefndina á fundi í morgun um vitneskju sína um hvað varð til þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum á Landsbankann í október.
„Mér fannst mjög óheppilegt að hann gat ekki skýrt frá sínum upplýsingum,“ segir Ágúst Ólafur. Upplýsa þurfi málið, ekki síst í ljósi þess að yfirvöld íhugi að kanna réttarstöðu sína gagnvart Bretum.
Davíð sagði á fundi Viðskiptaráðs nýlega, að hann byggi yfir upplýsingum um ástæður þess að bresk yfirvöld beittu hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum. Á fundi viðskiptanefndar bar hann hins vegar fyrir sig bankaleynd.
Ágúst Ólafur bendir á að í ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs hafi Davíð jafnframt getið þess að ýmis atriði málsins lytu ekki bankaleynd. „Þá kemur það manni spánskt fyrir sjónir að hann feli sig á bak við bankaleynd í þessu atriði. Það er raunar alveg óþolandi,“ segir Ágúst Ólafur. Sér hefði þótt hreinlegra og betra að Davíð upplýsti um vitneskju sína. „Þetta er ekki einkamál hans heldur varðar hagsmuni þjóðarinnar og stjórnvalda.“