Landið eitt tollumdæmi um áramót

mbl.is/Þorkell

Landið verður eitt tollumdæmi um næstu áramót og verður embætti tollstjórans í Reykjavík, falið að annast tollframkvæmd í landinu öllu, samkvæmt frumvarpi sem fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi í gær. Embætti sjö tollstjóra verða lögð niður og öll tollamál heyra frá og með áramótum undir fjármálaráðuneyti.

Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að einfalda skipulag tollgæslunnar, jafnt faglega, fjárhagslega sem stjórnunarlega, í því skyni að stuðla að aukinni skilvirkni, jafnræði og árangursríkari tollframkvæmd. Þessum breytingum er því ætlað að gera stjórnsýslu tollamála hagfelldari fyrir atvinnulífið, skattborgarana og þar með samfélagið í heild.

Fyrir breytingar sem samþykktar voru á tollastjórnsýslunni árið 2007 voru tollstjórar 26 talsins í jafnmörgum tollumdæmum. Tollembættin 26 heyrðu þá undir þrjú ráðuneyti: fjármálaráðuneytið (tollstjórinn í Reykjavík), utanríkisráðuneytið (sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli) og dómsmálaráðuneytið (aðrir tollstjórar). Við skipulagsbreytingarnar 2007 var bæði horft til þróunar í skipulagsmálum lögreglu í landinu og þeirrar staðreyndar að umfang tollamála í mörgum tollumdæmum var afar takmarkað og sums staðar nánast ekki neitt.

Frá árinu 2007 hafa tollstjórar í landinu verið átta í jafnmörgum tollumdæmum, þ.e. tollstjórinn í Reykjavík í Suðvesturlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Ísafirði í Vestfjarðaumdæmi, lögreglustjórinn á Akureyri í Norðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Seyðisfirði í Austurlandsumdæmi nyrðra, lögreglustjórinn á Eskifirði í Austurlandsumdæmi syðra, lögreglustjórinn á Selfossi í Suðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum í Vestmannaeyjaumdæmi og lögreglustjórinn á Suðurnesjum í Reykjanesumdæmi. Í dag heyra tollstjórarnir undir tvö ráðuneyti, þ.e. tollstjórinn í Reykjavík heyrir undir fjármálaráðuneyti en aðrir tollstjórar, sem jafnframt eru lögreglustjórar, undir dómsmálaráðuneyti.

Með frumvarpinu er lagt til að landið verði gert að einu tollumdæmi. Samhliða verður einu embætti, embætti tollstjórans í Reykjavík, falið að annast tollframkvæmd í landinu öllu, þó þannig að tollstjórinn geti falið sýslumönnum og lögreglustjórum að annast tiltekna þætti tollframkvæmdar í umdæmum þeirra. Til samræmis við það er lagt til að heiti embættis tollstjórans í Reykjavík breytist í embætti tollstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert