Mæðrastyrksnefnd úthlutar mat og fatnaði á miðvikudögum milli klukkan 14 og 17 allt árið um kring. Nefndin er til húsa í Hátúni 12b í Reykjavík, og er gengið inn á jarðhæð á hlið hússins. Þeir sem þurfa á úthlutun að halda geta einfaldlega mætt þar á ofangreindum tíma.
Sýna þarf persónuskilríki við komu. „Það er það eina sem við biðjum fólk að hafa með sér,“ útskýrir Ragnhildur. „Við flettum því svo upp til að sjá fjölskyldustærðina og meira þurfum við eiginlega ekki að vita. Við erum ekkert að snuðra í neinu öðru.“
Sérstök jólaúthlutun er í samstarfi Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins. Sækja þarf sérstaklega um hana fyrirfram og verður síðasti skráningardagur nefndarinnar næstkomandi þriðjudag milli klukkan 10 og 14. „Við höfum þennan háttinn á, aðallega til að koma í veg fyrir endalausar biðraðir,“ segir Ragnhildur. „Fólk fær þá að vita dagsetningu og klukkan hvað það á að mæta til að sækja jólapakkann. Ég á von á því að jólapokarnir í ár verði dálítið myndarlegir því fyrirtæki og einstaklingar hafa gefið rausnarlega að undanförnu.“
Við jólaúthlutunina fær fólk ekki aðeins mat til hátíðanna heldur einnig gjafir, s.s. leikföng og fleira til að gleðja börnin. Gjafirnar koma að stórum hluta frá fyrirtækjum en einnig frá einstaklingum sem hafa sett þær undir jólatré í verslunarmiðstöðvum. Ragnhildur tekur fram að skoðað sé í alla pakka áður en þeim er úthlutað. „Við höfum því miður lent í því að þeir hafi innihaldið hálfgert drasl og við viljum tryggja að slíkt lendi ekki hjá þeim sem síst skyldi.“
Jólaúthlutunin byrjar 15. desember en þá verður hafist handa við að senda varning til fólks á landsbyggðinni. Fólk á höfuðborgarsvæðinu sækir jólaglaðninginn hins vegar í Borgartún 25, á þeim tíma sem tilgreindur hefur verið við umsókn.
Þeir sem vilja koma gjöfum, mat eða öðrum varningi á framfæri við Mæðrastyrksnefnd geta hringt í síma 551 4349 alla virka daga. Einnig má hafa samband í gegnum netfangið maedur@simnet.is auk þess sem nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.maedur.is.