Ástþór Magnússon hefur sent fjölmiðlum bréf þar sem hann mótmælir framkomu skipuleggjenda opnu borgarafundanna í sinn garð. Ástþór ætlaði að mæta á fund í gær um skipulag næsta borgarafundar en honum var umsvifalaust vísað á dyr. Að sögn Ástþórs fór svo að þrír fílefldir karlmenn báru hann út.
Ástþór segir að hann hafi viljað fá að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúi en honum varð ekki að þeirri ósk. Þá vildi hann fá skriflega brottvísun en því var einnig synjað.
Ástþór segir þetta atvik vera í skjön við yfirlýst markmið á vefsíðunni
borgarafundur.org en þar segir „Opinn borgarafundur er breið fylking fólks sem á það sameiginlegt að vera umhugað um lýðræðislegt stjórnarfar á Íslandi. Félagsskapurinn er ekki flokkspólitískur og er opinn öllum sem áhuga hafa." Ástþór segir skipuleggjendurna sigla undir fölsku flaggi og sé ljóst að samtökunum sé stjórnað af fámennri klíku og eru alls ekki opin öllum.
Að sögn Hilmars Þ. Óskarssonar, eins skipuleggjenda opnu borgarafundanna, var ekki um að ræða opinn fund heldur skipulagsfund. Hann segir að reynt sé að hafa ekki pólitíska flokka innan samtakanna heldur sé reynt að fá frummælendur sem hafi ekki fengið að láta rödd sína heyrast á öðrum vettvangi, fólk á víðum grundvelli. Ástþór hafi hins vegar ákveðna sögu á bak við sig og segist m.a. vera að stofna lýðræðisflokk. „Ástþór er með ákveðinn stimpil sem hentar okkur ekki. Við báðum hann að fara með góðu en hann neitaði því,“ segir Hilmar.
Hann segir jafnframt að skipuleggjendurnir hljóti að mega ráða hverjir séu með þeim á skipulagsfundum og hverjir ekki. Markmiðið sé að láta heyrast í hinum almenna borgara sem hingað til hafi ekki fengið að spyrja spurninga. Ástþór hafi hins vegar lengi talað um að hann hafi stofnað og tilheyri ákveðnum samtökum. Þannig hljóti hann að vinna í gegnum þau og slíkt henti ekki fyrrnefndri stefnu.