Fyrstu flugeldarnir fóru inn í nýtt flugeldahús, eða Sprengjuhöllina, eins og húsið hefur verið uppnefnt, í fyrradag. Þetta kemur fram á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Þar segir að öryggisráðstafanir í húsinu séu miklar. Húsinu sé skipt í þrjú öryggissvæði og þar sem reglur séu stífastar verði starfsfólk að vera í vottuðum fatnaði. Engin raftæki séu leyfð í húsinu og það eigi jafnt við um farsíma og talstöðvar.
Þá segir að nýja húsið auki öryggi í
meðferð flugelda til muna og ljóst sé að betri aðstæður til að sýsla með
svona vöru finnist ekki á landinu.