Öllu starfsfólki Suðurgluggans ehf. sem gefur út fréttablaðið Gluggann, hefur verið sagt upp störfum. Að sögn Þóru Þórarinsdóttur, eiganda Suðurgluggans, eru uppsagnirnar til komnar vegna afar erfiðrar rekstrarstöðu í kjölfar efnahagsþrenginga í þjóðfélaginu.
„Þetta er varnaraðgerð. Við erum að leita allra leiða til að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi og við getum haldið áfram að gefa Gluggann út. Það er ljóst að staðan er þröng,” segir Þóra Þórarinsdóttir.
Fréttablaðinu Glugganum hefur verið dreift frítt heim til allra Sunnlendinga í fimm ár auk þess sem blaðið er opið til aflestrar á Netinu. Tæplega 8000 eintök eru borin án endurgjalds til allra heimila og fyrirtækja í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Fjórir fastir starfsmenn hafa unnið að útgáfunni.
Þóra segir stöðu fríblaða mjög erfiða í árferði eins og nú ríkir og því séu allar leiðir skoðaðar. Engar ákvarðanir hefi þó enn verið teknar.
„Starfsmenn blaðsins hafa sýnt mikinn metnað við útgáfuna, lagt kapp á að sinna öllu Suðurlandi og ræða við þá aðila sem tengjast fréttunum. Við höldum í vonina um að okkur takist að halda áfram, “ segir Þóra.