Þorskur í ætisleit úti um allt

„Það er mikið af þorski á slóðinni og hann er meira að segja kominn út á grálúðuslóðina á um 300 til 350 faðma dýpi,“ segir Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK í samtali við heimasíðu HB Granda.

Á heimasíðu HB Granda segir að skipstjórum á togurum HB Granda, beri saman um að mikið sé af þorski mjög víða á Vestfjarðamiðum og reyndar víðar á veiðislóðinni.

„Þessi fiskur er í ætisleit og maður vonar bara að hann sé ekki á leiðinni til Grænlands. Þá er þorsk að finna alveg upp í þaragarða þar sem hann virðist aðallega vera að éta smákrabba. Það vantar einfaldlega nægilegt æti fyrir þorskinn og þá einkum og sér í lagi loðnu. Það er alltof of lítið af henni,“ segir Eiríkur Ragnarsson.

Heimasíða HB Granda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert