Þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Hótel Saga.
Hótel Saga. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann, Robert Dariusz Sobiecki, í 3 ára fangelsi fyrir að nauðga stúlku á salerni Hótels Sögu í Reykjavík  í mars á síðasta ári. Málið hefur verið lengi í réttarkerfinu en maðurinn var upphaflega sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hæstiréttur ómerkti þann dóm og vísaði málinu aftur til héraðsdóms, sem dæmdi manninn þá í 3 ára fangelsi. 

Í Hæstarétti er vísað til þess, að maðurinn og konan, sem var 19 ára þegar þetta gerðist, þekktust ekki og höfðu aldrei hist áður. Hafnaði rétturinn staðhæfingu mannsins um að tengsl hafi myndast á  milli hans og konunnar, sem leitt hafi til þess að konan hafi samþykkt að maðurinn kæmi með henni inn á kvennasalernið og að í viðmóti hennar hefði falist samþykki við því að eiga við hann kynferðismök.

Þá taldi rétturinn að Robert hefði verið það fulljóst að konan var drukkin og að hann hefði ekki haft réttmæta ástæðu til að ætla að hún hefði verið samþykk kynmökum við hann af þeim sökum einum að hún hefði ekki veitt honum líkamlega mótspyrnu á salerninu eða hrópað á hjálp meðan á kynmökunum stóð. En konan lýsti því að það hefði stafað af því að hún hefði orðið fyrir miklu áfalli, þegar maðurinn ýtti henni inn í salernisklefann, að hún hefði ekki getað brugðist við. 

Fimm dómarar dæmdu í Hæstarétti. Einn þeirra, Jón Steinar Gunnlaugsson, skilaði sératkvæði og vildi sýkna sakborninginn. Segir í sératkvæði Jóns Steinars, að ósannað sé að manninum hafi verið ljós andstaða konunnar. Þetta þýði, að ekki hafi verið sannaður ásetningur mannsins til að þvinga konuna til kynmaka. Ákæruvaldið hafi því ekki fært fram sönnun um ásetning mannsins til nauðungar eins og nauðsynlegt sé til að háttsemi hans verði talin varða við ákvæði almennra hegningarlaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert