Áhrifin eru lengur að koma í gegn

Þeir sem notuðu greiðslukortin sín í dag mega því búast …
Þeir sem notuðu greiðslukortin sín í dag mega því búast við að gengið taki mið af stöðu krónunnar eftir helgi. mbl.is/Árni Sæberg

Gengi krónunnar hefur styrkst mikið í dag, og nú kostar t.d. evran 154 kr. skv. upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Það vekur hins vegar athygli að Visa- og Mastercard-gengið er hærra, en á vef Valitor og Borgunar kostar evran um 188 kr. Að sögn Valitors er ástæðan sú að alþjóðlega greiðslunetið, sem greiðslukortafyrirtækin eru aðilar að, er hægt í vöfum og því eru áhrifin lengur að koma í gegn.

„Þær færslur sem eru að koma til okkar í dag frá heimsnetinu, þær koma í nótt og tóku mið af gengi Seðlabankans á miðnætti,“ segir Bergsveinn Sampsted, framkvæmdastjóri kortalausna, hjá Valitor.

Hann bendir á þegar menn noti greiðslukort í viðskiptum erlendis þá berist greiðslan allajafna til Íslands einum til þremur dögum síðar. Sumar færslur geti komið seinna. Hann segir að þeir sem notuðu kortin í viðskiptum fyrir þremur dögum séu því að hagnast á núverandi gengi, því það sé lægra en það var þremur dögum áður.

Bergsveinn bendir hins vegar á að þetta virkar í báðar áttir, þ.e. þegar gengið veikist finni kortanotendur eins fyrir því.

Þeir sem notuðu greiðslukortin sín í dag mega því búast við að gengið taki mið af stöðu krónunnar eftir helgi. 

Í dag styrkist gengið mikið og segir Bergsveinn það vera mikið fagnaðarefni. Hann bendir hins vegar á að þeir sem séu að bera saman Visa-gengið við gengi Seðlabankans þá sé mismunurinn skýrður með því Valitor taki mið af stöðu gengisins á vef SÍ deginum áður, þ.e. í gær

„Menn eru hvergi að sjá svona miklar sveiflur,“ segir Bergsveinn og bendir á að staðan hérlendis sé einstök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert