Players þrifinn fyrir opnunarteiti

Starfsmenn skemmtistaðarins Players í Kópavogi, iðnaðarmenn og ræstingarfólk vinna nú hörðum höndum að því að koma Players í lag fyrir kvöldið en eldur kviknaði í olíublautum tuskum um 5 leytið í morgun. Tjón varð á parketi sem var verið að klára að leggja en nýlega var klárað að taka staðinn í gegn og átti að halda opnunarteiti í kvöld.

„Það eru fleiri tugir handa að ganga frá, pússa, græja og þrífa veggi, rafmagnskapla, borð o.fl.,“ segir Jóhannes Bachmann, rekstrarstjóri Players.

Mjög mikill reykur myndaðist vegna eldsins og segir Jóhannes mikla brunalykt vera á staðnum og er verið að ræsta út staðinn. Eina eiginlega brunatjónið varð á nýlögðu parketi en sjálfíkveikja varð í hrúgu af olíublautum tuskum sem höfðu verið notaðar til að olíubera parketið. Nýja parketið var lagt í kjölfar þess að staðurinn varð fyrir vatnstjóni fyrir hálfum mánuði. „Það var alveg splunkunýtt og ógengið,“ segir Jóhannes.

Undanfarna mánuði hefur skemmtistaðurinn verið tekinn í gegn. Skipt var um rafmagn, loftræstikerfi, snyrtingar, lýsingu, hátalarakerfi auk þess sem staðurinn var málaður og átti opnunarhátíð að vera í kvöld. „Það er unnið hörðum höndum svo við náum að opna í kvöld,“ segir Jóhannes en þá mæta Stuðmenn, Jónsi og Hara-systur. „Svo það er allt hér á fleygiferð,“ segir hann og sammælist því að best sé að vera jákvæður og hugsa að fall sé fararheill

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert