Íslenska krónan styrktist um rúm 8% eftir viðskipti gærdagsins og kostaði evran víða um 173 kr. Gengisvísitalan endaði í 229,6 stigum og hafði lækkað um 8,2%. Þetta mun vera mesta styrking krónunnar á einum degi frá því hún var fyrst sett á flot 2001.
„Þessi tilraun sem hófst í dag lofar góðu. Spár um að krónan myndi veikjast mjög á fyrsta degi viðskipta hafa ekki ræst. Þvert á móti hefur hún styrkst og það meira að segja verulega. Ég fagna þessu og tel að þetta séu mjög ánægjuleg tíðindi,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á fundi með fréttamönnum í Stjórnarráðinu í gær. Geir minnti á að hann sjálfur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Seðlabankinn og fleiri hefðu haldið því fram að gengi krónunnar hefði verið allt of lágt undanfarið. Ljóst væri að erlendur gjaldeyrir hefði skilað sér í meiri mæli í gær en eftirspurn var eftir. Því hefði gjaldeyrir lækkað í verði. Búist er við því að krónan haldi áfram að styrkjast næstu daga, með hliðsjón af vöruflæði og áætluðum viðskiptaafgangi í nóvember.