Gert er ráð fyrir að eignir gamla Landsbankans verði varðveittar þar í u.þ.b. 3 ár áður en þær verða seldar. Fram kemur í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna skulda bankanna í útlöndum, að talið sé að hámarksverðmæti fáist fyrir eignirnar með því að selja þær ekki að svo stöddu.
Í nefndarálitinu segir, að málið snúist nær einvörðungu um skuldir gamla Landsbanka Íslands vegna svokallaðra Icesave-reikninga. Talið sé að ekki muni reyna á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna skulda gamla Kaupþings, en formaður skilanefndar bankans upplýsti að útlit væri fyrir að sala á eignum bankans gæti staðið undir kröfum í búið vegna svokallaðra Kaupþing Edge reikninga. Þá hafi starfsemi gamla Glitnis erlendis verið með þeim hætti að afar ólíklegt sé að reyni á tryggingarsjóðinn.
Nefndarmeirihlutinn segir, að mikil óvissa sé enn um það virði sem fáist fyrir eignir bankanna en á grundvelli upplýsinga frá skilanefnd Landsbanka Íslands megi áætla að um 150 milljarðar króna geti staðið út af að því ferli loknu. Sá möguleiki er fyrir hendi að eignir Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum þannig að ekkert falli á ríkissjóð.
„Niðurstaða um þetta atriði ræðst fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar af endanlegu virði eigna gamla Landsbankans, en talið er að hámarksverðmæti fáist fyrir þær með því að selja þær ekki að svo stöddu. Er gert ráð fyrir að eignirnar verði varðveittar í gamla Landsbankanum í u.þ.b. 3 ár. Hins vegar ræðst niðurstaðan af þeim samningum sem hér er leitað heimildar til að gera," segir í nefndarálitinu.