Framhaldsskóli í Brúarlandi

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Herdís Sigurjónsdóttir formaður fræðslu-nefndar og Karl Tómasson …
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Herdís Sigurjónsdóttir formaður fræðslu-nefndar og Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar við Brúarland. Mynd Mosfellingur

Næsta haust geta framhaldsskólanemar í Mosfellsbæ sótt nám í heimabyggð því fyrir liggur samningur milli menntamálaráðuneytisins og Mosfellsbæjar um að settur verði á stofn framhaldsskóli í Mosfellsbæ frá og með haustinu 2009.

Mosfellingur greinir frá því að fyrstu tvö árin fari kennslan fram í Brúarlandi en Brúarlandshúsið var reist á öðrum áratug síðustu aldar sem barnaskóli.

„Það er sérlega ánægjulegt að Brúarland gangi nú í endurnýjun lífdaga og þar hefjist kennsla á nýjan leik. Nú verður þetta gamla og fallega hús tekið í gegn að innan sem utan,“ segir Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar í samtali við Mosfelling.

Framhaldsskóli sem kennir sig við auðlindir og umhverfi
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir að samkvæmt kostnaðaráætlun kosti endurbæturnar um 80 milljónir króna. Samkomulagið við mennta-málaráðuneytið gerir ráð fyrir að kostnaðurinn skiptist til helminga milli ríkisins og Mosfellsbæjar.
Að sögn Herdísar Sigurjónsdóttur formanns fræðslunefndar er stefnt að því að skólinn kenni sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi, bæði í náttúru sem og umhverfi mannsins og sjálfbærri menningu.

Tólf sóttu um stöðu skólameistara
Menntamálaráðuneytið hefur auglýst eftir skólameistara og rann umsóknarfrestur út 17. október sl. Alls sóttu tólf um stöðuna:

Ágústa Elín Ingþórsdóttir, sviðsstjóri
Ásgrímur Angantýsson, doktorsnemi
Björg Pétursdóttir, sérfræðingur
Björgvin Þórisson, framhaldsskólakennari
Daníel Arason, tónlistakennari
Eyjólfur Pétur Hafstein, grunnskólakennari
Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari
Jóhannes Ágústsson, framhaldsskólakennari
Kolbrún Kolbeinsdóttir, framhaldsskólakennari
Kristján Kristjánsson, verkefnastjóri
Ragnhildur Björg Guðjónsdóttir, framhaldsskólakennari
Willum Þór Þórsson, aðjúnkt

Nýverið skipaði menntamálaráðuneytið skólanefnd um nýjan framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Í henni sitja Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður, Ásta Björg Björnsdóttir, Eyjólfur Guðmundsson, Gylfi Dalmann og Jónas Sigurðsson. Eitt af verkefnum nefndarinnar er að ráða skólameistara og hefur hún þegar hafið viðtöl við umsækjendur. Ber nefndinni að skila niðurstöðum til menntamálaráðherra fyrir 12. desember næstkomandi.

Miðað er við að menntamálaráðherra skipi í stöðuna til fimm ára frá 1. janúar 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert