Höskuldur Þórhallsson býður sig fram til formanns

Höskuldur Þórhallsson alþingismaður hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti formanns í Framsóknarflokknum á flokksþinginu sem fram fer í janúar.

Fyrr í dag tilkynnti Páll Magnússon bæjarritari í Kópavogi að hann gefur kost á sér í formannsembættið en Valgerður Sverrisdóttir tilkynnti í vikunni að hún hættir sem formaður á þinginu. Hún var varaformaður en tók við formennsku þegar Guðni Ágústsson sagði óvænt af sér á dögunum.

Höskuldur Þórhallsson stundaði nám í viðskipta- og stjórnmálafræði við Háskóla Íslands jafnhliða námi í lögfræði. Hann nam Evrópurétt og alþjóðlegan einkamálarétt við Lundarháskóla í Svíþjóð 2001, lauk lögfræðiprófi frá HÍ 2003 og varð héraðsdómslögmaður 2005.

Hann var aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur 2003-2005, lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu hf. 2005-2007 og stundakennari í viðskiptarétti við Háskólann í Reykjavík 2005-2007.

Höskuldur var kosningastjóri Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi 2003, í stjórn Stéttarfélags lögfræðinga 2004-2006 og hefur setið í Þingvallanefnd síðan fyrr á þessu ári. Höskuldur hefur setið á Alþingi frá því í fyrra, er í menntamálanefnd og viðskiptanefnd og sat í umhverfisnefnd frá því í fyrra þar til í ár.

Eiginkona Höskuldar er Þórey Árnadóttir viðskiptafræðingur og eiga þau þrjú börn; þau eru Steinunn Glóey, Fanney Björg og Þórhallur Árni.

Höskuldur sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag:

„Að undanförnu hafa sviptivindar farið um íslenskt þjóðfélag. Umbrot síðustu mánaða kalla á breytingar íslensks stjórnarfars auk þess sem mikið uppbyggingarstarf er framundan. Þörf er á breytingum og nýjir tímar á Íslandi kalla á nýtt fólk og breyttar áherslur.

Í mínum huga eiga hugsjónir og gildi Framsóknarflokksins brýnt erindi við þjóðina. Mikilsverðustu hagsmunirnir eru að vernda heimilin og sporna við atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum. Hjól atvinnulífsins verða að fara að snúast á ný.

Eins og í þjóðfélaginu þá breytast hlutirnir oft hratt í heimi stjórnmálanna. Í Framsóknarflokknum hafa orðið ör formannsskipti og í gær tilkynnti núverandi formaður að hún myndi ekki sækjast eftir áframhaldandi kjöri til embættisins.

Upp á síðkastið hef ég fengið hvatningu og stuðning frá fjölmörgum flokksfélögum og fólki hvaðanæva af landinu um að sækjast eftir forystuhlutverki í Framsóknarflokknum. Eftir að hafa ráðfært við mig við fjölskyldu mína hef ég tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til embættis formanns Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem haldið verður í janúar. Framsóknarflokkurinn á að vera skýr valkostur í íslenskum stjórnmálum og ég vil leggja mitt af mörkum til að endurreisa flokkinn og þau gildi sem hann stendur fyrir.

Ég mun leggja mikla áherslu á að endurvekja traust á íslenskum stjórnmálum og Alþingi Íslendinga. Það þarf að gera skýran greinarmun á löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi og efla eftirlitshlutverk þingsins. Gegnsæi verður að vera á vinnubrögðum stjórnvalda og það má engum blandast hugur um að þar sé unnið af heiðarleika og festu.

Ég mun svo áfram leggja áherslu á það að hagsmunir fjölskyldunnar verði hafðir í fyrirrúmi. Að ákvarðanir sem teknar eru á hverjum tíma miðist að því að styrkja undirstöður samfélags okkar með því að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda, styrkja heimilin og búa vel í haginn fyrir börnin okkar. Um þessa mikilsverðu hagsmuni munum við framsóknarmenn standa vörð og aldrei gefa eftir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert