Jón Vigfús býður sig fram til formanns

Jón Vigfús Guðjónsson á Akureyri hefur tilkynnt framboð til embættis formanns í Framsóknarflokknum. Hann sendi frá sér tilkynningu í kvöld og er þar með sá þriðji sem gefur kost á sér. Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður, og Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, tilkynntu báðir í dag að þeir bjóði sig fram til formanns á flokksþinginu í janúar.

Tilkynning Jóns Vigfúsar sem hann sendi frá sér í kvöld er svohljóðandi:

„Ég er 39 ára gamall sjómaður á Akureyri og býð mig fram sem kost á alveg nýju blóði í flokkinn. Ég hef óbilandi trú á Framsóknarflokknum sem hefur þó átt í vök að verjast undanfarið en það er að mínu mati mest innanflokkserjur sem eru búnar að skemma fyrir okkur undanfarin misseri. Framsóknarflokkurinn er að mínu mati sá flokkur sem er hvað trúverðugastur og kemur sínum stefnumálum vel fram, þetta er fjölskylduvænn, öfgalaus miðjuflokkur sem á að taka ábyrgð á sínum gjörðum og á að geta bætt verulega við fylgi sitt um allt land ef vel er haldið á málum.

Ég er fæddur og uppalinn vestur á Suðureyri við Súgandafjörð en hef búið á Akureyri síðan 2005. Bjó í Reykjavík frá 1995 til 2005. Þar kynntist ég eiginkonu minni til 10 ára sem nú er látin, og við eignuðumst einn son, Grétar Þór en við feðgar búum 2 saman í dag. Sjómennska var mitt aðalstarf framan af en svo hef ég líka unnið við járnsmíði og fleira, en síðustu árin hef ég unnið við þorskeldi hér við Eyjafjörð.

Ég var virkur félagi í Reykjavíkurkjördæmi norður og hef setið kjördæmisþing og landsfundi fyrir það kjördæmi. Einnig tók ég þátt í prófkjöri hér á Akureyri 2006.

Brýnustu málin til að byrja með eru að mínu mati að koma á einingu innan flokksins og græða þau sár sem á honum eru. Velferð fólksins og skuldugra heimila er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um. Evrópumálin eru mér líka ofarlega í huga, ég hef ekki verið talsmaður inngöngu í Evrópusambandið hingað til, en vil að þjóðin fái að kjósa sem fyrst um hvort við eigum að fara í aðildarviðræður til að sjá hverju við töpum og hvað er í boði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert