Kennsla féll niður vegna vantrausts á skólastjóra

Svalbarðseyri.
Svalbarðseyri. www.mats.is

Ekki var kennt í Valsárskóla á Svalbarðseyri við Eyjafjörð á mánudag og þriðjudag í þessari viku í kjölfar þess að hluti foreldra nemenda lýsti á sunnudag yfir vantrausti á skólastjórann. Hann er nú farinn í leyfi, ótímabundið, skv. heimildum Morgunblaðsins. Um 60 börn eru skráð í skólann.

Deilur hafa staðið undanfarin misseri á milli skólastjórans og hluta foreldra barna í skólanum. Morgunblaðið veit að í einstaka tilfellum gekk svo langt að foreldrar ákváðu að færa barn sitt í annan skóla.

Kennarar hafa staðið þétt við bakið á skólastjóranum, að sögn heimildarmanns, og eftir að vantraust kom fram á skólastjórann treystu þeir sér ekki til þess að sinna kennslu fyrst um sinn. Hún hófst aftur á miðvikudag.

Kennararnir mættu til vinnu báða dagana en foreldrum var tilkynnt á sunnudagskvöld að þeir skyldu ekki senda börnin í skólann fyrr en þeir yrðu látnir vita. Kennarasamband Íslands hefur haft afskipti af málinu.

Morgunblaðið veit að í gær fundaði stjórn foreldrafélags skólans með trúnaðarmönnum kennara og fleiri kennurum. Skv. heimildum blaðamanns var þetta átakafundur en gekk engu að síður mjög vel. Málið er ekki leyst en útlitið mun betra en áður, eins og það er orðað.

Foreldri barns í skólanum sem Morgunblaðið ræddi við sagði ástandið slæmt fyrir sveitarfélagið, það væri afar óheppilegt ef samfélagið skiptist í tvær fylkingar, en lagði áherslu á að enginn einn sökudólgur væri í málinu. „Sjaldan veldur einn þá tveir deila,“ sagði viðkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert