Lagning Lyngdalsheiðarvegar lögleg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Vegagerðina af kröfu Péturs M. Jónassonar, vatnalíffræðings þess efnis að ógiltur verði úrskurður umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Lyngdalsheiðarvegar, milli Laugar­vatns og Þingvalla í Bláskóga­byggð.

Framkvæmdir hófust í haust við nýjan Gjábakkaveg eða Lyngdalsheiðarveg, milli Þingvalla og Laugarvatns. Vegagerðin samdi við lægstbjóðanda, Klæðningu ehf. í Hafnarfirði, sem bauðst til að vinna verkið fyrir sléttar 500 milljónir króna.

Núverandi vegur milli Þingvalla og Laugarvatns er að stofni til frá árinu 1907. Hann þykir erfiður yfirferðar og hefur lengi verið kallað eftir úrbótum.

Nýtt vegarstæði hefur verið mjög umdeilt. Pétur M. Jónasson vatnalíffræðingur hefur lengi barist gegn nýja veginum og varað við því að lífríki Þingvallavatns sé hætta búin. Hann stefndi Vegagerðinni og krafðist þess að úrskurður umhverfisráðherra um að veita Vegagerðinni heimild til að leggja veginn verði dæmdur ógildur.

Fjölskipaður héraðsdómur telur að ekki hafi verið farið á svig við lög við meðferð málsins. Vanhæfisreglur hafi ekki verið brotnar og því er hafnað að ráðherra hafi brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Vegagerðin var líka sýknuð af varakröfu Péturs, um að ógiltur yrði úrskurður umhverfisráðherra, að því er varðar svokallaða leið 7, vestur Eldborgarhraun.

Dómur héraðsdóms

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert