Páll Magnússon, bæjarritari, býður sig fram í embætti formanns Framsóknarflokksins á landsfundi flokksins, sem haldinn verður í janúar. Segir Páll í tilkynningu að nái hann kjöri muni hann leggja höfuðáherslu á breytt vinnubrögð í flokksstarfi og aukið lýðræði.
Páll segir, að mikil umræða hafi farið fram innan flokksins um nauðsyn á endurnýjun í forystunni og að nýtt fólk verði kallað til ábyrgðarstarfa. Hann hafi undanfarna daga átt samtöl við fjölmarga flokksmenn um stöðu flokksins og framtíð hans og í kjölfar þeirra ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í flokknum.
„Framtíð Framsóknarflokksins veltur á því hvort hann skynji kall kjósenda eftir breytingum í íslenskum stjórnmálum. Segja verður skilið við samtryggingu stjórnmálanna og ógagnsæ vinnubrögð. Rannsókn á efnahagshruni síðustu vikna þarf að ná aftur til þeirra ára sem bankarnir voru einkavæddir enda Framsóknarflokknum mikilvægt að allt verði upplýst í því ferli. Meginverkefni stjórnmálanna næstu vikur og mánuði verður þó að standa vörð um heimilin í landinu. Algerlega misheppnaðar aðgerðir núverandi stjórnvalda hafa leitt til þess að Íslendingar standa frammi fyrir gríðarlega brýnum og erfiðum verkefnum. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við alþjóðlegri fjármálakreppu hafa reynst óvönduð og fremur stuðlað að hruni fjármálakerfisins en björgun þess," segir m.a. í yfirlýsingu frá Páli.
Páll Magnússon er bæjarritari í Kópavogi. Hann er 37 ára gamall, kvæntur Aðalheiði Sigursveinsdóttur og saman eiga þau tvo syni. Hann er með BA-próf í guðfræði og meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hann hefur tekið þátt í starfi Framsóknarflokksins í um 20 ár. Hann var varabæjarfulltrúi í Kópavogi, varaþingmaður og aðstoðarmaður ráðherra. Þá var hann formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands fyrir hönd Röskvu, samtök félagshyggjufólks.