Þeir Gunnar Þórðarson og Rúnar Júlíusson þekktust frá níu ára aldri og þegar Gunnar ákvað að stofna sína fyrstu hljómsveit afréð hann að fá Rúnar með á bassann. Rúnar tók því vel og eftir tveggja vikna bassanám hjá Gunnari var hann farinn að spila með Hljómum sem varð fljótlega vinsælasta hljómsveit landsins.
Gunnar segir að allt frá því þeir léku sér saman sem börn og fram undir 1977 hafi ekki liðið margir dagar að þeir töluðust ekki við og þó leiðir hafi skilið um hríð hafi hann ævinlega verið honum ofarlega í huga og þannig samdi hann lagið Hey Brother til Rúnars.
Gunnar segist eðlilega sleginn yfir fréttunum og sárt að missa hann. „Hann var svo mikill eljumaður, vinnueljan var svo rík í honum, rokkið var svo sterkt."