Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás. Maðurinn réðist á þáverandi unnustu sína á heimili þeirra og sló hana með kaffikrús í andlitið. Konan nefbrotnaði og hlaut skurði í andlit. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni 300 þúsund krónur í miskabætur.
Þegar lögregla kom á staðinn mætti konan þeim í annarlegu ástandi og alblóðug. Hún var flutt á slysadeild. Maðurinn fannst undir rúmi í íbúðinni. Hann var einnig í annarlegu ástandi og var hann vistaður í fangageymslu.
Fyrir dómi neitaði maðurinn sök og bar við minnisleysi. Hann kvaðst ekkert muna eftir sér í íbúðinni þennan dag og ekki muna eftir að hafa verið handtekinn. Hann kvaðst fyrst muna eftir sér í fangaklefa daginn eftir. Á þessum tíma hefðu hann og konan verið ósátt vegna framhjáhalds konunnar.
Konan lýsti sambandi þeirra sem stormasömu, en þau höfðu búið saman í rúmt ár. Konan sagði ásakanir mannsins um framhjáhald hennar ekki hafa átt við rök að styðjast.
Brotaferill mannsins hófst árið 1982 en þá var hann dæmdur í skilorðsbundið varðhald fyrir nytjastuld. Árið eftir var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals og tilraun til þjófnaðar. Frá árinu 1985 hefur hann 13 sinnum verið dæmdur til óskilorðsbundinnar fangelsisvistar, síðast 21. maí 2008 í 3 mánaða fangelsi fyrir fjársvik, þjófnað og fíkniefnalagabrot. Maðurinn var síðast dæmdur fyrir ofbeldisbrot árið 1991. Þá var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir líkamsárás.