Stefnt er að því að Strætó bs. hefji akstur til Borgarness og Selfoss frá og með áramótunum. Þetta kemur fram á fréttavef Skessuhorns.
Byggðaráð Borgarbyggðar og bæjarráð Akraness hafa fyrir sitt leyti, að sögn Skessuhorns, samþykkt samningsdrög við Strætó bs. um nýtt fyrirkomulag almenningssamgangna milli þéttbýlisstaðanna Borgarness, Akraness og höfuðborgarinnar. Þá sé gert ráð fyrir að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar staðfesti samningsdrögin í næstu viku fyrir sitt leyti.
„Jafnframt hefur Strætó bs. samþykkt að frá næstu áramótum verði hafnar ferðir á Selfoss og Borgarnes og að tekið verður upp nýtt fyrirkomulag gjaldskrár sem byggir á svokallaðri sónarskiptingu eins og víða tíðkast erlendis. Það þýðir að gjaldskrá Strætó verður skipt upp í fjóra flokka eftir fjarlægð frá höfuðborginni. Í gjaldflokki eitt er sjálft höfuðborgarsvæðið. Borgarnes og Árborg munu lenda í gjaldflokkum fjögur en Akranes lenda með t.d. Hveragerði í gjaldflokki þrjú.“
Skessuhorn segir að hvert og eitt sveitarfélag geti síðan ákveðið að niðurgreiða gjaldskrárflokkana fyrir sína íbúa kjósi þau svo.