Kostnaður skattgreiðenda vegna þrifa á Alþingishúsinu sökum eggjakasts á húsið að undanförnu fer að nálgast eina milljón króna. Þetta segir Karl M. Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis.
Aðspurður segir hann menn hafa neyðst til þess að láta háþrýstiþvo húsið reglulega síðustu vikurnar þar sem það sé eina leiðin til þess að ná eggjaleifum af húsinu. Segir hann að fram að því hafi Alþingishúsið einungis verið skolað án háþrýstings þar sem mælt sé gegn því að húsið sé háþrýstiþvegið. Ástæðan er sú að endurtekin notkun heits vatns með þrýstingi er talin geta valdið skemmdum á steinfúgunni milli steinanna í byggingunni, ásamt því að kalla á aukið viðhald í framtíðinni. Segir Karl að gluggar hússins þoli ekki háþrýstiþvottinn vel þar sem vatn og múrleðja smjúgi meðfram gluggakarminum við hvern þvott.