Tæp 8% aðspurðra segjast vilja kjósa aðra flokka en buðu fram í síðustu alþingiskosningum, samkvæmt niðurstöðum könnunar Markaðs- og miðlarannsókna, MMR, sem gerð var dagana 2. til 5. desember.
Þetta er hærra hlutfall en fylgi Frjálslynda flokksins í síðustu alþingiskosningum. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú tveimur prósentustigum lægra en það mældist í október en fylgi Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs helst næsta óbreytt. Fylgi Framsóknarflokksins fellur um nærri helming frá síðustu könnun og litlar breytingar mælast á fylgi Frjálslynda flokksins. Fylgi Íslandshreyfingarinnar eykst hins vegar.
Vinstri hreyfingin grænt framboð er stærsti stjórnmálaflokkurinn samkvæmt könnun MMR, mælist með mest fylgi eða 30%. Í könnun MMR mældist fylgi VG 29,7% en í kosningunum í fyrra fékk VG 14,3% fylgi.
Samfylkingin mælist næst stærst, með 27,1% en var með 27,3% í október. Kjörfylgi Samfylkingarinnar í fyrra var 26,8%.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 25,7% fylgi og dalar frá síðustu könnun. Í október mældist fylgi Sjálfstæðisflokks 27,8% en í kosningum fékk flokkurinn 36,6% fylgi.
Framsóknarflokkurinn mælist með 4,9% fylgi en var með 9,2% í október og 11,7% í kosningunum 2007. Sé fylgi Framsóknarflokks skoðað út frá búsetu kemur í ljós að flokkurinn mælist með 2,5% fylgi á höfuðborgarsvæðinu en 9,2% á landsbyggðinni.
Frjálslyndi flokkurinn mælist með 3% nú en fylgið mældist 3,5% í október. 7,3% kusu Frjálslynda flokkinn í síðustu kosningum.
Íslandshreyfingin mælist með 1,6% fylgi en fylgið mældist 0,7% í október. Íslandshreyfingin fékk 3,5% í síðustu kosningum.
Athygli vekur að 7,7% segjast nú vilja kjósa aðra flokka en buðu fram í síðustu kosningum en 2,5% sögðust í október vilja aðra flokka en buðu fram fyrir alþingiskosningarnar 2007.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um nærri fjórðung
Samkvæmt könnun MMR mælist stuðningur við ríkisstjórnina nú rétt um 11% minni en í október og stendur í 34,5%. Athygli vekur að stuðningur við ríkisstjórnina meðal þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna minnkar töluvert, eða úr 62,2% í október í 52,5% nú.
Könnun MMR var síma- og netkönnun. 2464 einstaklingar á aldrinum 18 til 67 svöruðu.