„Ábyrgðin er ekki okkar“

Gerður Kristný var annar tveggja ræðumanna á mótmælafundinum á Austurvellií …
Gerður Kristný var annar tveggja ræðumanna á mótmælafundinum á Austurvellií dag. mbl.is/Ómar

„Ábyrgðin er ekki okkar heldur ráðamanna þjóðarinnar. Höldum áfram að krefja þá svara við því hvers vegna hagkerfið okkar fór í hundana og látum þá líka ábyrgjast að það gerist ekki aftur,“ sagði Gerður Kristný, annar tveggja ræðumanna á mótmælafundinum á Austurvelli í dag.

Mun færri mættu til fundarins í dag en undanfarna laugardaga. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn áætlar að þúsund til fimmtán hundruð manns hafi verið á Austurvelli. Allt fór friðsamlega fram og ekki eitt egg í þinghúsið eins og lögregla orðaði það.

Þetta er níundi mótmælafundurinn sem efnt er til undir yfirskriftinni „Breiðfylking gegn ástandinu.“ Fundurinn hefur einnig það markmið að sameina þjóðina og skapa meðal hennar samstöðu og samkennd.

Jón Heiðar Erlendsson, atvinnubílstjóri ávarpaði mótmælafundinn á Austurvelli í dag.

„Ég er meðlimur í fyrstu hryðjuverkasamtökum Íslands, en það eru hagsmunasamtök atvinnubílstjóra. Eins og þið munið vorum við kallaðir hryðjuverkamenn af stjórnvöldum þegar við vorum eingöngu að vekja máls á okkar málum og ykkar í leiðinni. Nú eru þessir sömu menn að kalla okkur öll skríl,“ sagði Jón.

Hann sagði að nú fækkaði ört í „hryðjuverkasamtökunum“ því bílstjórar geti ekki staðið í skilum við fjármögnunarleigurnar sem stjórnvöld báðu um að sýna biðlund.

Jón lýsti viðskiptum sínum við eitt þessara fyrirtækja þegar hann gat ekki greitt af lánum sínum. Hann keypti dráttarbíl á 2,2 milljónir í ágúst 2007 og borgaði út í honum eina milljón. Þá stóðu eftir 1,2 milljónir og fékk Jón myntkörfulán hjá Lýsingu.

„Í dag er búið að taka þennan sama bíl af mér og hann er metinn af þeim sömu og lánuðu mér í honum á 441 þúsund og ég á að borga þeim að auki 1.700 þúsund krónur. Ég borgaði allt fram í ágúst 2008 og þá sagði ég við þá að ég gæti reddað kaupanda að þessum bíl á 441 þúsund þar sem það væri rétta verðið. Þá hlyti ég að geta ráðið hver keypti. Svarið sem ég fékk var eitthvað á þessa leið: Nei, þessi bíll fer á miklu meira til útlanda.“

Gerður Kristný sagði sögu af vinkonu sinni sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Austurvelli fyrir mörgum árum. Hún hlaut örkuml af og voru henni dæmdar bætur upp á þrjár milljónir króna sem hún ávaxtaði í gömlu bönkunum föllnu. Fyrir hrun voru bætur stúlkunnar komnar í rúmar sjö milljónir, nú eru þær aftur orðnar þrjár, eftir bankahrunið.

„Þetta er ein af þeim sögum sem mér hafa borist til eyrna úr bankahruninu og í samanburði verða frásagnir af lúxusjeppum, keyptum á myntkörfulánum, að býsna hjáróma kvaki. Og eins og Davíð nokkur fróði er talinn hafa ort; Það er dauði og djöfuls nauð, er dyggðasnauðir fantar. Safna auð með augun rauð, þá aðra brauðið vantar,“ sagði Gerður Kristný.

Hún sagði það gamla sögu og nýja að í illu árferði, yrðu þeir verst úti sem minnst mega sín. Hjálparstofnanir þyrftu nú að hafa allar klær úti til að sinna skjólstæðingum sínum, útvega hangikjötslæri, baunadósir og kartöflur.

„Það eru að koma jól. Það er erfitt að sætta sig við að örfáir auðmenn skyldu geta farið jafnilla með líf okkar og framtíð og komið hefur í ljós. Að þeir skyldu hafa slíkt ægivald yfir örlögum okkar. Að ekki skuli hafa verið til lög í landinu til að stoppa þá af eða einfaldlega vilji til þess,“ sagði Gerður Kristný.

Hún sagði að ekki mætti leyfa þessum örfáu auðmönnum að taka meiri völd í lífi almennings en þeir hafa þegar komist upp með. Þá hvatti hún fandarmenn til að vanda sig betur þegar efnt verður til kosninga næst.

„Þetta er land hinna týndu flokka. Fæstir þeirra sem í boði eru starfa að minnsta kosti eins og hugur minn. Þeir starfa frekar eins og fætur færeysks þjóðdansara, tvö skref til hægri en bara eitt til vinstri. Flokkarnir sem nú eru við völd hljóta samt að hafa áttað sig á því að næst viljum við nýtt lag, nýjan undirleik og við viljum að þeir dansi í sama takti og við hin,“ sagði Gerður Kristný.

Hörður Torfason sem staðið hefur að fundunum sagði að á næstunni yrði gripið til frekari aðgerða en upplýsti ekki í hverju þær muni felast. Opnuð hefur verið miðstöð mótmælenda að Borgartúni 3 og vefsíða á slóðinni raddirfolksins.org 

mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka