Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, hefur fengið flest atkvæði til þessa í netkosningu, sem bandaríski vefmiðillinn Huffington Post gengst fyrir um versta bankamann heims.
Miðillinn vísar til greinar, sem blaðamaðurinn Daniel Gross skrifaði í síðustu viku þar sem hann útnefndi Fred Goodwin, fyrrum forstjóra Royal Bank of Scotland, sem versta bankamann heims.
Huffington Post gefur kost á að kjósa á milli níu manna, og auk Árna og Goodwins eru þar nefndir Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Jimmy Cayne, fyrrum forstjóri Bear Sterns, Richard Fuld, fyrrverandi forstjóri Lehman Brothers, Chris Cox, yfirmaður fjármálaeftirlits Bandaríkjanna, Alan Fishman, forstjóri Washington Mutual og Vikram Pandit, forstjóri Citigroup.
Til þessa hefur Árni fengið 34,7% atkvæða, Greenspan 19%, Fuld 11,3% og Paulson 10,9% en aðrir minna.