Laun starfsmanna fjármálafyrirtækja hækka um 20.500 krónur á mánuði frá 1. nóvember, samkvæmt kjarasamningi sem Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í gær. Laun hækka að auki um 14.000 krónur 1. janúar 2010.
Samningar SSF hafa verið lausir frá 1. október síðastliðnum en nýr samningur gildir til ársloka 2010.
Auk krónutöluhækkana við undirritun og í ársbyrjun 2010 hækkar orlofsframlag um 3,25% við gildistöku og um 2,5% 1. júlí 2009. Þá öðlast starfsmenn lengri orlofsrétt, þeir sem starfað hafa í 5 ár fá 27 daga og þeir sem hafa starfað í 10 ár, fá 30 daga orlofsrétt.
Starfsmenn með 0 til 3 ára starfsreynslu fá 2% viðbótarframlag af heildarlaunum í lífeyrissjóð en eftir þriggja ára starfsreynslu greiðir vinnuveitandi 7% viðbótarframlag.
Framlag í Menntunarsjóð SSF hækkar í 0,20%, starfsmenn fá 12 daga vegna veikinda barna í stað 10 áður og frá áramótum greiðir vinnuveitandi 0,13% framlag í endurhæfingarsjóð.
Í samningnum eru ákvæði um endurskoðun vegna verðlagsþróunar. Komi til þess að nefnd sem fjallar um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nái samkomulagi um breytingu á samningum, gildir sambærileg breyting um kjarasamning SSF og SA.
Atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um kjarasamninginn verður rafræn og fer fram í næstu viku.