Björgvin: Spurningarmerki við Glitnisatburðarás

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson. mbl.is/Frikki

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, frétti síðdegis sunnudaginn 28. september, að til stæði að íslenska ríkið yfirtæki Glitni að stærstum hluta. Tilkynnt var morguninn eftir að ríkið myndi leggja bankanum til nýtt 80 milljarða króna hlutafé og fá 75% hlut í bankanum.

Björgvin sagði í Markaðnum á Stöð 2 í dag, að hann hefði frétt af því hvað til stæði þegar aðstoðarmaður hans, sem er einnig efnahagsráðgjafi Samfylkingarinnar, og annar ráðherra Samfylkingarinnar, voru kallaðir til funda vegna málsins.

Björgvin sagði að setja mætti spurningarmerki við þessa atburðarás alla og að eðlilegt hafi verið, fyrst Seðlabankinn ætlaði að fara þessa leið, að kalla viðeigandi ráðherra mun fyrr að málinu. Þess í stað hefði þeim verið  rutt inn í atburðarásina á lokasprettinum.

Hann sagði að erfitt væri að meta hvort þessi aðgerð hefði verið rétt en rannsaka þyrfti hver þáttur Glitnisaðgerðanna var í falli bankanna. Hins vegar blasti við öllum, að mun heppilegra hefði verið að þetta mál hefði verið unnið öðruvísi og  stjórnvöld verið kölluð fyrr til leiks.

Björgvin sagði að pólitísk spenna væri milli seðlabankastjóra og þeirra, sem hefðu talað fyrir aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Þetta kunni að hafa orðið til þess að samskipti hans og Davíðs Oddssonar hefðu verið minni en ella. Hins vegar hefðu samskiptin milli Seðlabankans og forsætisráðuneytisins sjálfsagt verið eðlileg og góð enda heyri Seðlabankinn undir forsætisráðuneytið.

Björgvin sagði óheppilegt að seðlabankastjóri sé í hápólitískri þátttöku eins og hann sé á sumum sviðum. Heppilegra væri fyrir þá, sem taka við stjórnmálaflokkum, að þeir fái að gera það í sæmilegum friði fyrir fyrirrennurum sínum. Þá sagði Björgvin óheppilegt, að menn skuli blanda saman pólitík og peningastjórnun en á meðan bankastjórnin sitji njóti hún trausts ríkisstjórnar enda væru allir að fást við mikilvæg verkefni. „Við verðum að þjappa okkur saman og treysta stjórnvöldum og stofnunum til að fást við kreppuna," sagði Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka