Fjárfestar sýna Árvakri áhuga

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum. Morgunblaðið/ ÞÖK

Töluvert hefur miðað í þessari viku í vinnu við að skjóta styrkari stoðum undir starfsemi Árvakurs hf. sem á Morgunblaðið og mbl.is, að sögn Einars Sigurðssonar forstjóra félagsins. Forystumenn Árvakurs hf. hafa unnið að verkefninu með viðskiptabanka félagsins, Nýja Glitni.

„Við höfum farið ítarlega yfir efnahag og rekstraráætlanir fyrirtækisins eins og við teljum að það geti litið út í framtíðinni. Við teljum að það sé stutt í niðurstöðu og þá getum við farið að vinna að því að koma með nýtt fjármagn inn í fyrirtækið,“ sagði Einar.

Fram hefur komið töluverður áhugi fjárfesta á félaginu. Einar sagði að þegar niðurstaða lægi fyrir um framtíðarfyrirkomulag rekstrarins yrði hægt að hefja viðræður við þá sem lýst hafa áhuga á að eignast hlut í félaginu. Stefnt er að því að það verði fyrir miðjan mánuðinn. Á þessu stigi vildi Einar ekki greina frá því hverjir hafa lýst áhuga á að koma að Árvakri hf., en sagði að væntanlega yrði gerð grein fyrir því síðar. Stefnt væri að tiltölulega dreifðri eignaraðild.

Sem kunnugt er sendu Árvakur hf. og 365 hf. Samkeppniseftirlitinu erindi varðandi ósk um samruna Árvakurs og Fréttablaðsins. Í óskinni fólst að byrjað yrði á samstarfi um prentun og dreifingu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Einar segir að í samstarfi um þá tvo þætti felist ein mesta kostnaðarhagræðing sem hægt sé að ná í dagblaðaútgáfu hér á landi.

Samkeppniseftirlitið hefur nú svarað með svonefndu andmælaskjali. Félögin tvö hafa frest til 12. desember n.k. til að bregðast við því.

„Þarna fara fram viðræður milli málsaðila og samkeppnisyfirvalda og munu þær væntanlega leiða að niðurstöðu um hvort og þá með hvaða skilmálum samruni og/eða samstarf verði heimilað,“ sagði Einar. Hann taldi ekki rétt að tjá sig neitt um efnisatriði andmælaskjalsins því málsaðilar ættu eftir að fara saman yfir málið og viðbrögð við því.

Verði hægt að fullnægja öllum skilyrðum Samkeppniseftirlitsins er ekkert því til fyrirstöðu að sameina prentun Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í prentsmiðjunni Landsprenti, dótturfélagi Árvakurs, um næstu áramót, að mati Einars. Einnig er stefnt að því að byggja upp nýtt dreifikerfi fyrir bæði blöðin á grundvelli núverandi dreifikerfa þeirra. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert